Það er líklegast að Tomas Rosicky verði næsti yfirmaður knattspyrnumála hjá Arsenal samkvæmt helstu miðlum ytra.
Staðan er laus eftir að Edu hætti óvænt í haust og skoðar Arsenal arftaka hans. Rosicky þykir þar góður kostur, en hann spilaði auðvitað lengi með liðinu.
Hann þekkir þá vel til knattspyrnustjórans Mikel Arteta eftir að þeir spiluðu saman á Emirates. Þá er Tékkinn einnig góður vinur Per Mertesacker, sem er yfir akademíu Arsenal.
Rosicky er í dag í starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá Sparta Prag í heimalandinu. Samningur hans þar rennur út næsta sumar og vill hann helst klára hann.
Rosicky lék með Arsenal frá 2006 til 2016. Spilaði hann hátt í 200 leiki og vann liðið enska bikarinn í tvígang á meðan hann var þar.