Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins og Bayern Munchen, var kjörin íþróttamaður ársins um liðna helgi með fullt hús stiga.
Sóley Margrét Jónsdóttir og Eygló Fanndal Sturludóttir voru í öðru og þriðja sæti en það vakti athygli einhverra að Albert Guðmundsson hafi ekki komist í topp þrjá. Hann var í fjórða sæti.
„Glódís átti þetta fyllilega skilið. Albert Guðmundsson komst ekki í topp þrjá. Samt var hann einn besti leikmaðurinn í einni bestu deild heims. Ég set spurningamerki við það,“ sagði Kristján Óli Sigurðsson um málið í Þungavigtinni.
Albert átti ótrúlegt ár með Genoa og var hann fenginn til stórliðs Fiorentina í sumar. Var hann þá nálægt því að koma Íslandi á EM síðasta sumar með frammistöðum sínum gegn Ísrael og Úkraínu í umspilinu.
„Hann var virkilega góður og yfirburðarmaður í þessum einu landsleikjum sem voru mikilvægir á árinu,“ sagði Mikael Nikulásson.