Cristiano Ronaldo hefur á ný verið gagnrýndur fyrir ummæli sín á Globe-fótboltaverðlaunahátíðinni í Dúbaí undir lok síðasta árs
Ronaldo, sem er leikmaður Al-Nassr í Sádi-Arabíu, sagði á hátíðinni að deildin þar í landi væri sterkari en Ligue 1 í Frakklandi.
„Frakkland hefur bara Paris Saint-Germain. Restin er ekki neitt. Reyndu að spretta í 38-40 gráðu hita. Það er erfitt að verða meistari í Sádí,“ sagði Ronaldo meðal annars.
Margir urðu gáttaðir á þessum ummælum og var töluvert skotið á Portúgalann í kjölfarið.
Emmanuel Petit, fyrrum knattspyrnumaður sem lék með Monaco í frönskudeildinni frá 1988 til 1997 áður en hann gekk í raðir Arsenal, er einn af þeim sem var ekki hrifinn af ummælum Ronaldo.
„Að segja að sádiarabíska deildin sé betri en Ligue 1, kommon. Ég virði Ronaldo en stundum er betra að þegja bara en að ná sér í svona athygli,“ segir Petit um málið.