Eiður Smári Guðjohnsen segir magnað að svo langt sé á milli Liverpool og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni, í ljósi þess hvernig leikur liðanna var í gær.
Leikurinn var hin mesta skemmtun og lauk með 2-2 jafntefli. Liverpool er áfram með gott forskot á toppnum en United lyfti sér upp í 13. sæti.
„Það sem stendur upp úr eftir leik, þegar maður horfir á bæði lið, er að það er ótrúlegt að það séu 13 sæti á milli þessara liða. 23 stig, 13 sæti,“ sagði Eiður í Vellinum á Símanum Sport í gær.
„Ég held að United sé mun meiri sigurvegari dagsins með þetta stig miðað við Liverpool en þvílík skemmtun þessi seinni hálfleikur,“ bætti hann við.