Knattspyrnumaðurinn Rodrigo Garro er undir rannsókn þessa stundina eftir atvik sem átti sér stað snemma í gær.
Garro er leikmaður Corinthians í Brasilíu en hann lenti í árekstri við mann á mótorhjóli sem varð til þess að sá síðarnefndi lést.
Atvikið átti sér stað um klukkan fimm um nótt en talið er að Garro hafi verið undir áhrifum áfengis er hann keyrði bifreiðina.
Fyrrum liðsfélagi Garro, Facundo Castelli, var með honum í bílnum en líklegast er að um slys hafi verið að ræða.
Maðurinn á mótorhjólinu er talinn hafa látið lífið samstundis en slysið gerðist í La Pampa í Argentínu.
Garro er sjálfur 27 ára gamall og slapp vel eftir áreksturinn en hann hefur undanfarið ár leikið með Corinthians í Brasilíu.
Garro er búinn að loka fyrir alla aðganga sína á samskiptamiðlum eftir fréttirnar og er talinn vera miður sín eftir slysið.