Árið 2024 var gert upp í Íþróttavikunni á 433.is á dögunum. Þá mættu Ríkharð Óskar Guðnason og Kristján Óli Sigurðsson í settið til Helga Fannars og Harðar Snævars.
Fjöldi verðlauna voru veitt í þættinum en voru þau mis eftirsóknarverð. Verðlaun sem enginn vill er í flokknum „vonbrigði ársins“ en þar var karlalið Vals í fótbolta valið. Gestir þáttarins voru sammála þessu.
„Valur er vonbrigði ársins í karlafótbolta. Þeir voru dottnir úr titilbaráttu löngu áður en venjulegu móti lauk eftir að hafa blásið í alla þessa herlúðra, fengið Gylfa Þór Sigurðsson heim,“ sagði Ríkharð.
Töluverðar breytingar hafa átt sér stað á bak við tjöldin hjá Val í vetur. Arnór Smárason er til að mynda kominn inn sem yfirmaður knattspyrnumála.
„Ég held það sé margt á Hlíðarenda sem þarf bara að skoða ofan í kjölinn. Það er kannski ástæða fyrir því að ný stjórn er komin, það er búið að ráða yfirmann knattspyrnumála sem segir allt sem segja þarf. Að mínu mati er Valur félag sem þarf að fara í alvarlega naflaskoðun, sérstaklega karlamegin,“ bætti Ríkharð við áður en Kristján tók til máls.
„Þeir taka Gylfa Þór, Jónatan Inga sem er á besta aldri, Bjarna Mark. Þetta eru þrír að koma úr atvinnumennsku og bætum svo við Ögmundi Kristinssyni, fyrrum landsliðsmarkverði Íslands. Báðir markverðirnir hafa farið á stórmót með Íslandi. Þetta er ótrúlegt,“ sagði hann.
Valur skipti um þjálfara á miðri leiktíð þegar Arnar Grétarsson var látinn fara eftir tap gegn St. Mirren í Skotlandi og Srdjan Tufegdzic, Túfa, tók við.
„Maður er kannski eitthvað litaður en það hefur eitthvað gengið á þegar þjálfarinn er rekinn í Skotlandi og átti bara að fara heim með sveittu töskunum. Það hefur mikið gengið á,“ sagði Kristján.
Umræðan í heild er í spilaranum.