Harry Maguire mun fá framlengingu á samningi sínum hjá Manchester United en þetta hefur félagið staðfest.
Ruben Amorim, stjóri United, virðist ætla að treysta á Maguire út tímabilið hið minnsta en gengi liðsins hefur verið fyrir neðan allar hellur undanfarna mánuði.
Amorim staðfestir að hann sé búinn að ræða við Maguire og treystir á að hann geti hjálpað í að koma öðrum leikmönnum almennilega af stað innan vallar.
Maguire er 31 árs gamall en hann var ekki inni í myndinni hjá Erik ten Hag sem var rekinn í október.
,,Ég ræddi við Harry í morgun og sagði við hann að við þyrftum að bæta okkur á vellinum, við þurfum mikið á honum að halda,“ sagði Amorim.
,,Hann þarf líka að stíga upp sem leiðtogi. Við þekkjum öll stöðuna sem hann var í hjá félaginu en þessa stundina þá þurfum við á honum að halda.“