Victor Osimhen er áfram orðaður við Manchester United og gæti Marcus Rashford verið notaður í skiptidíl til að landa nígerska framherjanum.
Osimhen er á láni hjá Galatasaray frá Napoli. Hann var orðaður við fjölda stórliða síðasta sumar, þar á meðal United, en ekkert gekk upp og var farinn sú leið að lána hann til Galatasaray þar sem samband hans við ítalska félagið var í molum.
Lánssamningurinn gildir út leiktíðina en samkvæmt The Sun vonast United til að landa Osimhen í janúar. Klásúla er í samningi leikmannsins við Napoli upp á 62 milljónir punda en United hyggst reyna að nota Rashford upp í kaupin.
Rashford virðist ekki eiga neina framtíð á Old Trafford undir stjórn Ruben Amorim og er opinn fyrir því að fara. Hann hefur þó hafnað tilboðum frá Sádi-Arabíu og Tyrklandi.
Hjá Napoli myndi hann hitta fyrir fyrrum liðsfélaga sína hjá United, Scott McTominay og Romelu Lukaku.