Arne Slot, stjóri Liverpool, var enn og aftur spurður út í stöðu mála hjá Trent Alexander-Arnold í aðdraganda leiksins gegn Manchester United á sunnudag.
Trent er stöðugt orðaður við Real Madrid. Samningur bakvarðarsins rennur út næsta sumar og má hann nú ræða við önnur félög um að fara frítt til þeirra næsta sumar.
Real Madrid bauð þá 20 milljónir punda til Liverpool með það fyrir augum að fá hann strax í janúar.
„Einbeiting hans er algjörlega hér og ég get sagt ykkur það að hann spilar á sunnudag,“ sagði Slot, spurður út í stöðuna.
„Ég mun ekki fara út í samtal okkar á milli. Það hefur verið mikið um orðróma um okkar leikmenn undanfarna mánuði.“
Þrátt fyrir stórkostlegt gengi á leiktíðinni er mikið af sögusögnum í kringum framtíð lykilmanna Liverpool. Auk Trent eru samningar Mohamed Salah og Virgil van Dijk einnig að renna út næsta sumar.