Franski miðillinn Foot Mercato heldur þessu fram, en það þarf ekki að koma mörgum á óvart í ljósi þess hversu fá tækifæri Chiesa hefur fengið á Anfield frá því hann kom í sumar.
Ítalinn var keyptur frá Juventus á aðeins 10 milljónir punda í sumar en hann hefur í heildina spilað 123 mínútur með Liverpool. Meiðsli hafa sett strik í reikninginn og virðist kappinn einfaldlega ekki inni í myndinni.
Það eru allar líkur á að Chiesa fari aftur til Ítalíu í mánuðinum. AC Milan, Roma og Napoli hafa öll áhuga, enda leikmaðurinn sannað sig í Serie A.
Líklegt þykir að Chiesa fari frá Liverpool á láni út tímabilið til að byrja með. Ítölsk félög eru sögð hikandi við að borga jafnvel helming launapakka hans, sem er upp á 6 milljónir punda á leiktíð.
Chiesa skrifaði undir fjögurra ára samning er hann gekk í raðir Liverpool í sumar.