Pep Guardiola, stjóri Manchester City, var spurður út í samningsmál Kevin De Bruyne á blaðamannafundi í dag.
Samningur De Bruyne, sem er orðinn 33 ára gamall, rennur út eftir tímabilið, en þessi frábæri leikmaður hefur glímt töluvert við meiðsli á þessari leiktíð.
„Þetta kemur mér ekki við. Hann átti í vandræðum undanfarið ár en þegar hann er heill er hann gríðarlega mikilvægur fyrir okkur,“ sagði Guardiola, spurður út í stöðu De Bruyne hjá félaginu og framtíðina.
„Klúbburinn þarf að skoða frammistöður hans, aldurinn og taka svo ákvörðun.“
Eins og flestir vita hefur City verið í miklum vandræðum á leiktíðinni. Situr liðið í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar og titillinn svo gott sem farinn.