Það var staðfest á dögunum að Sölvi Geir Ottesen væri orðinn aðalþjálfari Víkings. Tekur hann við af Arnari Gunnlaugssyni sem tók við íslenska landsliðinu, en Sölvi var aðstoðarmaður hans í Víkinni.
„Þetta er eitthvað sem maður hefur vitað síðan Arnar fór í viðræður við Norrköping (fyrir um ári). Hann var alltaf að fara að vera arftakinn,“ sagði Hrafnkell Freyr Ágústsson í Íþróttavikunni á 433.is.
Víkingur hefur auðvitað náð frábærum árangri undir stjórn Arnars. Hrafnkell setur spurningamerki við að ekki sé fenginn reynslumeiri maður til að leysa hann af.
„En ég set alveg spurningamerki við þetta, Víkingur er með alla þessa peninga, þurfa eitthvað að endurnýja liðið sitt. Að fara í alveg reynslulausan aðalþjálfara, ég veit ekki alveg með það,“ sagði hann.
„Það er búið að móta hann lengi í þetta starf,“ skaut Helgi þá inn í, áður en Hrafnkell tók til máls á ný.
„Ég er alveg til í að gefa honum sénsinn og vonandi bara gengur þetta vel, þó auðvitað ég sem Bliki vilji að þetta gangi illa,“ sagði hann léttur í bragði.