Serbneski knattspyrnumaðurinn Jovan Mitrovic er genginn í raðir nýliða ÍBV í Bestu deild karla, en félagið staðfesti þetta í dag.
Mitrovic er miðvörður sem verður 24 ára gamall á morgun. Kemur hann frá FK Indjija í serbnesku B-deildinni.
Tilkynning ÍBV
Serbneski knattspyrnumaðurinn Jovan Mitrovic er genginn til liðs við ÍBV. Hann kemur til ÍBV frá serbneska liðinu FK Indjija, þar sem hann hefur leikið síðustu 18 mánuði, í næst efstu deild. Jovan verður 24 ára á morgun, 25. janúar.
Hann hefur leikið stórt hlutverk með liðinu á tímabilinu en hann lék sinn síðasta leik fyrir félagið 14. desember, hann lék 1780 af 1800 mínútum liðsins á leiktíðinni og var fyrirliði liðsins í 8 af 20 leikjum.
Jovan kemur til með að styrkja lið ÍBV fyrir átökin í Bestu deildinni en hún hefst í byrjun apríl á leik gegn Víkingi Reykjavík. Þorlákur Árnason, þjálfari, hafði þetta að segja um leikmanninn:
„Jovan er stór og sterkur miðvörður, sem þrátt fyrir ungan aldur hefur verið fyrirliði í liði sínu í Serbíu undanfarin ár. Við erum gríðarlega spenntir fyrir þessum leikmanni.“
Knattspyrnuráð ÍBV býður Jovan velkominn til félagsins.