Al-Ahli í Sádi-Arabíu er til í að rústa metinu yfir dýrasta leikmann heims til að sækja Vinicius Junior frá Real Madrid í sumar.
Sádar hafa haft augastað á Vinicius lengi og segir blaðamaðurinn Ben Jacobs að Al-Ahli sé til í að greiða tæpar 300 milljónir punda fyrir Brasilíumanninn.
Vinicius yrði þar með dýrasti leikmaður sögunnar og fyrra met, Neymar til PSG árið 2017, yrði bætt um 100 milljónir punda.
Al-Ahli er þegar með menn á borð við Ivan Toney, Roberto Firmino og Riyad Mahrez innan sinna raða en vilja eina stjörnu til viðbótar.
Sádar hafa þegar stækkað deild sína mikið með því að fá stórstjörnur til liðs við sig fyrir háar fjárhæðir. Vilja þeir taka deildina skrefinu lengra og sækja stórstjörnu eins og Vinicius á besta aldri.
Vinicius er 24 ára gamall og ein skærasta stjarnan í Evrópuboltanum, en hann er samningsbundinn Real Madrid til 2027.