Arsenal hefur spurst fyrir um Benjamin Sesko, eftirsóttan framherja RB Leipzig, en það gæti reynst ansi erfitt að landa honum í þessum mánuði.
Talksport segir frá þessu og að Sesko sé eitt af helstu skotmörkum Arsenal. Félagið er í framherjaleit, ekki síst vegna meiðsla Gabriel Jesus.
Arsenal þarf helst framherja í þessum mánuði en það þykir mun líklegra að Sesko komi í sumar, ef hann gerir það yfirhöfuð. Hann er samningsbundinn Leipzig til 2029 og metinn á um 70 milljónir punda.
Sesko, sem er 21 árs gamall, er með 14 mörk í öllum keppnum á þessari leiktíð með Leipzig.