Fyrstu tveimur leikjum kvöldsins í Meistaradeild Evrópu er lokið.
Í Þýskalandi tók RB Leipzig á móti Sporting. Hinn eftirsótti Benjamin Sesko kom heimamönnum yfir á 19. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.
Annar eftirsóttur, Viktor Gyokeres, jafnaði leikinn þegar stundarfjórðungur var eftir en Yussuf Poulsen tryggði Leipzig 2-1 sigur skömmu síðar.
Sporting er í 19. sæti með 10 stig en Leipzig er í 30. sæti með 3 stig.
Shakhtar Donetsk vann þá Brest í leik sem fór fram á Veltins Arena í Þýskalandi. Brasilíumaðurinn Kevin og Úkraínumaðurinn Georgiv Sudakov sáu til þess að Shakhtar vann 2-0 sigur.
Brest er í 11. sæti með 13 stig en Shakhtar er í því 27. með 7 stig, stigi frá sæti í næstu umferð.