Fulltrúar Marcus Rashford áttu nýlega fund með Deco, yfirmanni knattspyrnumála hjá Barcelona. Spænska blaðið Sport segir frá.
Rashford er að öllum líkindum á förum frá Manchester United í þessum mánuði þar sem hann á enga framtíð undir stjórn Ruben Amorim á Old Trafford.
Hann hefur verið orðaður víða en undanfarna daga hefur fréttaflutningur af honum verið á þann veg að kappinn vilji helst ganga í raðir Barcelona.
Hugsanleg skipti Rashford til Katalóníu voru rædd á dögunum en það þarf þó að greiða úr öðrum málum svo skiptin gangi upp vegna fjárhagsstöðu Börsunga.
Þarf félagið sennilega að losa Eric Garcia og þá þarf að finna lausn á framtíð Ansu Fati einnig.