Jack Grealish gæti yfirgefið enska boltann í sumar eftir erfitt tímabil með Manchester City.
Þetta kemur fram í The Sun, en þar segir að Dortmund og Inter fylgist náið með gangi mála hjá Grealish.
Grealish kostaði 100 milljónir punda er hann gekk í raðir City sumarið 2021. Hefur félagið orðið Englandsmeistari öll árin hans þar en Grealish sjálfur þó ekki beint staðið undir verðmiðanum.
Hann er í aukahlutverki í liði Pep Guardiola á þessari leiktíð og gæti farið annað, líklega þó ekki fyrr en í sumar.
Ítalía og Þýskaland kæmu þar meðal annars til greina, en sem fyrr segir skoða Inter og Dortmund þann möguleika að fá enska kantmanninn.
Samningur Grealish hjá City rennur út sumarið 2027.