Barcelona og Monaco eru á eftir Marcus Rashford, leikmanni Manchester United, ef marka má nýjustu fréttir.
Rashford er á förum frá United í þessum mánuði þar sem hann er algjörlega úti í kuldanum hjá stjóranum Ruben Amorim.
AC Milan og Dortmund hafa undanfarið verið hvað helst nefnd sem hans líklegustu áfangastaðir en fleiri félög eru komin í umræðuna.
Spænska blaðið Sport segir að Börsungar vilji ólmir fá Rashford og að félagið leiði meira að segja kapphlaupið um hann.
Vandi Barcelona er þó fjárhagslegur, en Rashford er með yfir 300 þúsund pund á viku og félagið þarf að hreinsa hressilega til í bókhaldinu til að ráða við þann pakka.
Breska blaðið The Sun segir Monaco þá einnig mjög áhugasamt. Félagið er þá fjársterkt og gæti ráðið við launapakka Rashford að fullu.
Ekki er víst hvort Rashford fari frá United á láni til að byrja með eða endanlega, takist honum að koma sér frá Old Trafford í þessum mánuði.