Rafíþróttamaðurinn Alfreð Leó Svansson var á dögunum útnefndur íþróttakarl Þórs á Akureyri árið 2024. Er hann að feta í fótspor mikilla goðsagna og var sjálfum brugðið er hann hlaut viðurkenninguna.
„Það er mjög skrýtið. Ég bjóst ekki við því sko. Þetta er sami titill og Gummi Ben vann. Það er frekar grillað sko. Ég svitnaði og svitnaði, það var bara eitthvað fullt af íþróttafólki að klappa fyrir mér. Ég spila Countrstrike sko. Þetta er afreksfólk,“ sagði Alfreð í samtali við RÚV.
Eins og hann kemur réttilega inn á hlaut íþróttalýsandinn ástsæli, Guðmundur Benediktsson, verðlaunin fyrstur manna árið 1990.
Alfreð var þá spurður að því hvort honum finnist hann eiga skilið að hljóta nafnbótina. „Ja, við vorum náttúrulega þeir einu sem lönduðum titli, við strákarnir,“ sagði hann og aðspurður sagði hann svo rafíþróttir vera íþrótt upp að vissu marki.