Mohamed Salah hjá Liverpool og Rodrygo hjá Real Madrid eru efstir á óskalista sádiarabíska félagsins Al-Hilal fyrir sumarið.
Það er ítalski blaðamaðurinn Rudy Galetti sem heldur þessu fram, en hann fylgist vel með gangi mála í Sádí.
Neymar er á förum frá Al-Hilal. Líklega fer hann aftur til Santos í Brasilíu en hann hefur einnig verið orðaður við bandaríska liðið Chicago Fire.
Því vill Al-Hilal fá stórstjörnu í hans stað. Salah er nefndur til sögunnar og það ekki í fyrsta sinn. Egyptinn er reglulega orðaður við Sádí.
Salah verður samningslaus hjá Liverpool í sumar og framtíð hans í lausu lofti. Hann hefur verið stórkostlegur á þessari leiktíð og á greinilega nóg eftir í hæsta gæðaflokki.
Rodrygo er hins vegar mikið yngri en Salah, 24 ára gamall og er samningsbundinn Real Madrid til 2028. Það er þó spurning hvort Sádarnir geti freistað Brasilíumannsins og Real Madrid með himinnháum fjárhæðum.