Ben Chilwell leitar nú leiða til að koma sér frá Chelsea áður en félagaskiptaglugganum verður skellt í lás um mánaðarmótin.
Vinstri bakvörðurinn er algjörlega í frystinum hjá Enzo Maresca, stjóra Chelsea, og er einn þeirra sem má fara frá Stamford Bridge.
Nú segja miðlar á Ítalíu að Juventus sé á eftir Chilwell og sé sem stendur líklegasta félagið til að landa honum.
Juventus er þá á eftir öðrum vinstri bakverði Chelsea, Renato Veiga, sem er fáanlegur á láni. Dortmund hefur einnig áhuga.
Það er ekki loku fyrir það skotið að Juventus fái bæði Chilwell og Veiga þar sem vinstri bakvörður ítalska liðsins, Andrea Cambiaso, er á óskalista Manchester City.