Víðir Sigurðsson, blaðamaðurinn geðþekki á Morgunblaðinu, furðar sig á umræðu í kringum Íslendinga sem spilað hafa í efstu deild Englands undanfarið, í kjölfar þess að Hákon Rafn Valdimarsson bættist í þann hóp á dögunum.
Ástæðan er sú hversu mikið er lagt upp úr því hverjir hafa spilað í úrvalsdeildinni eftir að nafninu var breytt úr 1. deild árið 1992. Alls hafa 21 Íslendingur spilað í efstu deild Englands en 19 ef aðeins er talið frá nafnabreytingunni.
„Hvers eiga Albert Guðmundsson og Sigurður Jónsson, tveir af betri knattspyrnumönnum Íslandssögunnar, að gjalda?“ spyr Víðir í pistli í Morgunblaðinu. Albert og Sigurður léku með Arsenal á sínum tíma og Sigurður einnig með Sheffield Wednesday.
„En samkvæmt allri „nútíma“ tölfræði væru þeir ekki taldir með. Þeir léku í deildinni áður en henni var breytt úr 1. deild í úrvalsdeild árið 1992. Enskir fjölmiðlar og fótboltatölfræðingar eru nánast búnir að búa þannig um hnútana að þeir sem yngri eru halda að fótboltinn á Englandi hafi hafist fyrir 32 árum. Þess vegna varð einhverjum á að segja að nítján Íslendingar en ekki 21 hefðu spilað í deildinni þegar Hákon Rafn markvörður Brentford bættist í hópinn á föstudaginn,“ skrifar Víðir, en Hákon er á mála hjá Brentford og kom inn á vegna meiðsla Mark Flekken á dögunum.
„Frá stofnun úrvalsdeildarinnar“ fylgdi með en það hefði átt að vera óþarfi. Deildin sem Albert lék í árið 1946 og Sigurður frá 1985 var efsta deild Englands. Það er óþarfi að setja þá í sviga. Þetta er svipað og við tækjum okkur til og miðuðum allan íslenskan fótbolta við árið 1997. Allt sem gerðist fram að því væri ekki talið með í tölfræði dagsins í dag.“