Real Madrid hefur áfram mikinn áhuga á William Saliba og er til í að slá heimsmet á félagaskiptamarkaðnum til að klófesta hann.
Spænska blaðið Sport heldur þessu fram, en Saliba hefur lengi verið orðaður við Real Madrid í kjölfar stórgóðrar frammistöðu sinnar með Arsenal undanfarin ár.
Það er þó talið að Real Madrid þyrfti að borga að minnsta kosti 83 milljónir punda fyrir þjónustu Saliba. Yrði hann þar með dýrasti miðvörður heims, tæki fram úr Harry Maguire sem Manchester United keypti frá Leicester á 80 milljónir punda 2019.
Sport segir jafnframt að Real Madrid hafi rætt við fulltrúa hins 23 ára gamla Saliba og að hann sé opinn fyrir skiptum. Sjálfur hefur Saliba hins vegar látið í ljós opinberlega að honum líði afar vel hjá Arsenal og hafi ekki í hyggju að fara. Hann er samningsbundinn í tvö og hálft ár til viðbótar.