Árið 2024 var gert upp í Íþróttavikunni á 433.is á dögunum. Þá mættu Ríkharð Óskar Guðnason og Kristján Óli Sigurðsson í settið til Helga Fannars og Harðar Snævars.
Það var auðvitað rætt um íslenska karlalandsliðið í fótbolta og til að mynda markmannsstöðuna þar, en Hákon Rafn Valdimarsson eignaði sér hana endanlega á árinu sem leið.
Hákon gekk í raðir Brentford fyrir ári síðan og þó svo að hann hafi spilað sinn fyrsta úrvalsdeildarleik á dögunum í kjölfar meiðsla Mark Flekken hafa tækifærin verið af skornum skammti.
Age Hareide, sem hætti sem landsliðsþjálfari seint á síðasta ári, lét reglulega í ljós að hann væri ósáttur með að Hákon væri ekki að spila. Alltaf stóð hann þó í rammanum.
„Hann var alltaf að hóta því að taka hann úr liðinu en gerði það aldrei. Hann var að spila vel í öllum landsleikjum. Til hvers ertu að hóta honum þessu?“ sagði Hörður um málið í þættinum.
Kristján óli tók undir þetta en segir jákvætt hvernig markmannsmálin hafa þróast í landsliðinu.
„Við erum í mjög góðum málum með markmannsstöðuna. Það er mikilvægt að hafa samkeppni þar eins og annars staðar. En Hákon er markvörður númer eitt sama hver tekur við sem næsti landsliðsþjálfari.“
Umræðan í heild er í spilaranum.