Hin reynslumikla Berglind Björg Þorvaldsdóttir er að snúa aftur í Breiðablik samkvæmt Fótbolta.net.
Berglind er samningslaus eftir að Valur nýtti sér heldur óvænt uppsagnarákvæði í samningi hennar eftir síðustu leiktíð. Hún gekk í raðir Vals eftir að hún kom heim úr atvinnumennsku á miðju tímabili.
Berglind þekkir vel til hjá Breiðabliki en hún er uppalin þar og raðaði inn mörkum fyrir félagið á árum áður. Hún hefur spilað fyrir lið á borð við AC Milan og Paris Saint-Germain erlendis.
Berglind, sem er 32 ára gömul, á að baki 72 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Í þeim hefur hún skorað 12 mörk.