Það er greinilegt að eitthvað gengur á á bak við tjöldin hjá Manchester United því stjórinn Ruben Amorim og sóknarmaðurinn Joshua Zirkzee eru sagðir hafa átt í átökum.
Amorim skipti Zirkzee af velli eftir aðeins um hálftíma í 0-2 tapi gegn Newcastle fyrir áramót. Stuðningsmenn fögnuðu í kaldhæðnistón þegar Hollendingurinn fór af velli, en hann hefur ekki heillað á Old Trafford frá því hann kom til United frá Bologna í sumar.
Zirkzee fór niður leikmannagöngin eftir að hafa verið skipt af velli og samkvæmt fréttum var hann gráti næst. Hann kom þó og tók sér sæti á varamannabekk United skömmu síðar.
Nú segir ítalski miðillinn Corriere dello Sport svo að Amorim og Zirkzee hafi rifist á bak við tjöldin. Þar kemur einnig fram að Zirkzee vilji fara á láni í janúarglugganum.
Hann hefur til að mynda verið sterklega orðaður við Juventus. Þar er hans fyrrum stjóri frá tímanum hjá Bologna, Thiago Motta.