Manchester City vann stórsigur á Ipswich í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.
Eins og flestir vita hefur City átt í miklum vandræðum á leiktíðinni en liðið fór hins vegar létt með nýliða Ipswich í dag.
Phil Foden kom þeim yfir eftir tæpan hálftíma leik og Mateo Kovacic tvöfaldaði forystuna skömmu síðar. Foden skoraði svo sitt annað mark fyrir lok fyrri hálfleiks og staðan 0-3.
Leikmenn City voru ekki hættir og Jeremy Doku skoraði fjórða markið snemma í seinni hálfleik. Eftir tæpan klukkutíma leik var komið að Erling Braut Haaland, sem skrifaði undir nýjan langtímasamning á dögunum. Kom hann City í 0-5 áður en James McAtee innsiglaði 0-6 stórsigur.
City er þar með komið upp í fjórða sæti deildarinnar, 12 stigum á eftir toppliði Liverpool sem einnig á leik til góða.
Ipswich er í átjánda sæti með 16 stig, jafnmörg og Wolves sem er sæti ofar.