Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamaður á RÚV, var gestur Helga Fannars og Hrafnkels Freys í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is
Freyr Alexandersson tók á dögunum við sem þjálfari norska stórliðsins Brann. Um stórt starf er að ræða, en liðið hefur hafnað í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar undanfarin tvö tímabil.
Freyr tók svo sinn fyrsta blaðamannafund í Noregi. Var hann vel sóttur og Freyr stóð sig vel.
„Hann byrjaði fundinn á að tala um grein sem var skrifuð um hann fyrr um daginn. Sagðist vilja hrósa þessari grein, hún hafi verið frábærlega skrifuð og heimavinnan góð. Hann spurði hver í salnum skrifaði þessa grein og hrósaði honum svo. Þarna er hann strax búinn að næla sér í velvild,“ sagði Helgi í þættinum.
„Hann kemur úr þessum skóla hjá Lars Lagerback og Heimi. Hann veit það að ef hann er með fjölmiðlana með þér í liði, þá er ólíklegt að menn fari að ydda blýantana strax,“ skaut Þorkell þá inn í.
Það liggur þó enginn vafi á því að Freyr er í pressumiklu starfi, sérstaklega ef hallar undan fæti.
„Norðmenn hafa ekkert verið hræddir við það í gegnum tíðina að láta menn fara,“ sagði Hrafnkell.