Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamaður á RÚV, var gestur Helga Fannars og Hrafnkels Freys í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is
Arnar Gunnlaugsson var í vikunni ráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins, en það hafði legið lengi í loftinu. Freyr Alexandersson var einnig orðaður við starfið.
„Ég hefði sætt mig við hvorn sem er. Ég held að Arnar sé mjög góður kostur í þetta starf. Eina gagnrýnin sem ég hef heyrt er spjaldasöfnunin hjá Víkingi, við megum ekki við því í landsleikjabolta. En ég held að hann sé ekkert að fara í það þarna,“ sagði Þorkell.
Arnar var duglegur að safna spjöldum og leikbönnum í Víkinni en Hrafnkell heldur telur að það verði minna um það með landsliðinu.
„Ég trúi ekki að hann ætli að fara að vera eitthvað trylltur hérna á Laugardalsvelli, þekkir dómarana ekki neitt og er að tala ensku. Þetta er miklu persónulegra hérna heima.“