Wilfried Zaha hefur átt erfiða mánuði undanfarið og virðist nú á leið til Bandaríkjanna samkvæmt fréttum þar í landi.
Zaha er nú á láni hjá Lyon frá Galatasaray en tyrkneska félagið mun kalla hann til baka og lána út til Charlotte FC í Bandaríkjunum. Er leikmaðurinn sagður kominn vel á veg í viðræðum þar.
Zaha, sem er 32 ára gamall, gekk í raðir Galatasaray frá Crystal Palace sumarið 2023 eftir frábær ár í London. Stóð hann ekki undir væntingum í Tyrklandi og var lánaður til Lyon í sumar, þar sem hann hefur heldur ekki staðist væntingar.
Nú mun hann að öllum líkindum reyna að kveikja á ferli sínum enn á ný með Charlotte.
Þess má geta að Dean Smith, fyrrum stjóri Aston Villa, Norwich og fleiri liða, er við stjórnvölinn hjá Charlotte.