„Þetta er stærsta starf sem þjálfari getur fengið, að þjálfa sína þjóð og vera undir naflaskoðun hjá öllum. Að standast þá pressu og lifa undir þeirri pressu. Ég tel mig til að hafa nægilega reynslu, ekki bara í fótboltanum heldur lífinu líka, til að takast á við hana,“ sagði Arnar við 433.is í Laugardalnum í dag.
Aðdragandinn að ráðningu Arnars var töluverður, en Freyr Alexandersson var einnig mikið í umræðunni. Arnar hættir sem þjálfari Víkings eftir frábært starf þar. Vann hann Íslandsmeistaratitilinn tvisvar, bikarinn fjórum sinnum og er búinn að koma liðinu í útsláttarkeppni í Sambandsdeildinni.
„Ég var mikið í fríi þegar það var verið að ræða um þetta og var að fylgjast mikið með. Ég hélt mér utan við umræðuna. En það var alveg ljóst í mínum huga að ef áhugi væri fyrir hendi þyrfti að fara ákveðna leið, hafa samband við Víkingana mína og sjá hvað þeir hafa að segja. Blessunarlega hefur þessi skilnaður gengið mjög vel, sem skilnaðir gera almennt ekki. Það hafa allir aðilar höndlað vel það sem hefði getað orðið eldfimt ástand.
Víkingur er á frábærum stað í dag, sem ég er mjög stoltur og ánægður með. Þeir eru tilbúnir að taka næsta skref. Ég held það sé bara fullkominn tímapunktur til að slíta naflastrenginn strax. Þetta er tilfinningaflóð og ég er ekkert feimin við að viðurkenna það að þetta er mikil sorg líka. Það er erfitt að fara úr umhverfi þar sem þér líður vel alla daga og þar sem fjölskyldan þín er,“ segir Arnar, en Sölvi Geir Ottesen, aðstoðarmaður Arnars, tekur við af honum í Víkinni.
Arnar var spurður út í það hvað hann þyrfti helst að ráðast í sem nýr þjálfari karlalandsliðsins.
„Þegar maður fer að grúska í þessu á bak við tjöldin höfum við ekki verið nægilega sterkir. Það er ekkert flóknara en það. Við höfum átt móment í leikjum og góða leiki inn á milli en það er til dæmis sturluð staðreynd að okkur hefur ekki tekist að vinna tvo leiki í röð í undankeppnum í mörg ár. Ég er mikið fyrir að vinna í staðreyndum og það eru ákveðnar staðreyndir sem eru sláandi. Það eru mörg smáatriði sem þarf til að gera okkur að góðu liði. Spila leik hér heima og takast á við þær tilfinningar, fara upp í flugvél og mæta til dæmis Úkraínu þremur dögum seinna. Ég er vanur þessu umhverfi í Víkinni og það eru ákveðnar vinnureglur sem ég er vanur að vinna eftir sem ég mun innleiða hér hjá KSÍ.“
Arnar undirstrikaði mikilvægi þesssarar ráðningar í viðtali á dögunum, áður en hann tók við. Er það til að mynda vegna gæðanna í hópnum en það eru fleiri ástæður.
„Við verðum að vera hreinskilin með það að því lengra sem líður frá því að við komumst á stórmót, allir peningarnir sem fylgja því og hvað við getum stækkað okkur, stutt við félagsliðin, grasrótarstarfið, þess vegna sagði ég að þetta væri svo mikilvæg ráðning út frá því. Þú þarft alltaf að taka skref fram á við en undanfarin fimm ár höfum við aðeins staðnað af ýmsum ástæðum. En undanfarin tvö ár finnst mér þetta hafa farið aðeins í rétta átt aftur.“
Fyrsta verkefni Arnars verður umspil um að halda íslenska liðinu í B-deild Þjóðadeildarinnar gegn Kósóvó í mars en svo tekur við undankeppni HM næsta haust.
„Ég tel það mjög raunhæft (að komast á HM). Kannski ekki að vinna riðilinn en að ná öðru sæti. Þá ertu komin í bikarúrslitaleiki í umspilinu og ég er mjög vanur því,“ sagði Arnar.
Ítarlegra viðtal við Arnar er í spilaranum.