Félög í ensku úrvalsdeildinni voru hrædd við það að kaupa varnarmanninn Virgil van Dijk er hann spilaði með Celtic í Skotlandi.
Þetta segir Pat Nevin, goðsögn Chelsea, en Manchester United og Chelsea höfðu horft aðeins til leikmannsins.
Að lokum fékk Southampton þennan öfluga leikmann í sínar raðir en hann fór svo til Liverpool og hefur lengi verið einn besti miðvörður heims.
Að sögn Nevin þá eru ensk lið hrædd við það að kaupa leikmenn frá Skotlandi enda deildin þar í landi mun verri en sú enska.
,,Þegar kemur að ensku úrvalsdeildinni þá eru lið efins varðandi leikmenn frá Skotlandi. Ég man eftir því að Manchester United og Chelsea töldu að Virgil van Dijk væri að gera of mörg mistök – ástæðan er þó að honum einfaldlega leiddist,“ sagði Nevin.
,,Getiði ímyndað ykkur muninn á liðinu ef David Moyes hefði fengið Van Dijk? Hann fór til Southampton og svo Liverpool en lið vildu ekki borga 10 milljónir punda fyrir hann hjá Celtic.“