FH hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna Skessu-málsins. Þar eru fjölmiðlar til að mynda gagnrýndir og sakaðir um að vega að heiðri forsvarsmanna félagsins.
Í fyrra fékk Hafnarfjarðarbær Deloitte til að skoða bókhald aðalstjórnar FH vegna kostnaðar við byggingu á Skessunni á sínum tíma og misræmis í ársreikningum félagsins. Tengist það viðræðum um kaup bæjarins á knatthúsinu.
Mörgum var brugðið er skýrsla Deloitte lá fyrir, einkum vegna þess að Jón Rúnar Halldórsson, fyrrum formaður knattspyrnudeildar, og bróðir hans, Viðar Halldórsson, formaður aðalstjórnar, virtust samkvæmt henni hafa hagnast vel á framkvæmdunum.
Meira
Hafnarfjarðarbær sendir langt erindi til FH og krefst svara – „Þessi ákvörðun er tekin án samþykkis“
Félagið þvertekur fyrir þetta og gaf Jón Rúnar til að mynda út yfirlýsingu í síðustu viku.
Nú hefur félagið sent út yfirlýsingu þar sem það útskýrir kostnaðinn á Skessunni og aðild Viðars, svo dæmi séu tekin.
Þar segir einnig að eftir fyrirhuguð kaup Bæjarins á Skessunni verði eignir FH metnar á 1,5 milljarð, sem sé það sama og eigið fé og félagið verði því skuldlaust.
FH boðar þá til upplýsingafundar þar sem félagsmenn eru hvattir til að mæta og ræða málefnin milliliðalaust og án aðkomu fjölmiðla. Fundurinn verður haldinn klukkan 17:30 á fimmtudag.