„Ég er mjög ánægður með að taka slaginn áfram með KA. Tímabilið í fyrra endaði vel og við urðum bikarmeistarar. Ég held það séu allir á því að gera betur á þessu ári, allavega í deildinni, og ég er mjög spenntur fyrir því,“ segir Viðar í samtali við 433.is.
Eins og Viðar segir vann KA bikarmeistaratitilinn á síðustu leiktíð. Liðið vann margfalda meistara Víkings í úrslitaleik. Norðanmenn höfnuðu hins vegar í 7. sæti Bestu deildarinnar og mistókst að vera í efri hluta töflunnar þegar henni var skipt upp.
„Við hefðum átt að koma okkur í efra „playoff“ því við vorum á rosa siglingu í seinni umferðinni en klikkum á nokkrum leikjum sem hefðu getað komið okkur þangað. Við litum rosalega vel út í seinni umferðinni. Það sem klikkaði hjá okkur var að við vorum svolítið seinir af stað. Ég kem til dæmis í engu standi og þetta bara tekur tíma. En við spiluðum mjög vel í seinni umferðinni og það er bara synd að við höfum ekki byrjað þannig.“
Viðar, sem verður 35 ára þegar nýtt tímabil rúllar af stað, gekk í raðir KA í fyrra eftir glæstan feril í atvinnumennsku. Það tók tíma fyrir hann að koma sér í gang en eftir það reyndist hann liðinu afar mikilvægur. Hann hlakkar til að vera upp á sitt besta og hjálpa KA allt frá byrjun leiktíðar.
„Ég er í ágætis standi núna. Það er mikið af leikjum framundan og ég tók bara stutta pásu eftir síðasta tímabil. Ég er búinn að æfa mikið í vetur og það verður frábært að koma inn í mótið í toppstandi. Það eru þrír mánuðir í mót svo ég hef tíma til að gera þetta á réttum hraða. Svo reikna ég með að það verði bætt í liðið hvað á hverju svo ég held að það verði orðið klárt í byrjun móts. Ég hlakka mikið til að sjá hvað í mér býr allt frá byrjun.“
Sigur í bikarnum veitir þátttökurétt í undankeppni Sambansdeildarinnar og þangað fer KA næsta sumar. Viðar þekkir Evrópuboltann nokkuð eftir tíma sinn erlendis.
„Þeir eru ekki með í Evrópu á hverju ári. Með þessari þriðju Evrópukeppni (Sambandsdeildinni) er líka búið að búa til miklu auðveldari leið og meiri séns í leikjunum. Það hefur sýnt sig í því að íslensku liðin hafa verið að bæta sig. Þú ferð inn í þetta með smá von núna. Fyrir nokkrum árum var þetta meira upp á gamanið. Nú sérðu að ef þú færð hagstæðan drátt geturðu gert einhverja hluti. Ég er með fína reynslu í Evrópukeppnum og vona að það geti hjálpað eitthvað.“
Eins og margir vita var Viðar settur í keppnisbann af FIFA í október í fyrra vegna skuldar við fyrrum lið sitt í Búlgaríu, CSKA Sofia 1948. Um er að ræða liðið sem hann var hjá áður en hann kom til KA. Sagði hann allt frá upphafi að um viðráðanlega upphæð væri að ræða og að málið myndi leysast á farsælan hátt. Nú hefur banninu verið aflétt og er Viðar feginn því.
„Það var ekki beint einfalt en það tók sinn tíma. Það þurfti allt að fara í gegnum viðræður við búlgarska klúbbinn og þaðan til FIFA og þess háttar. Við vorum ég ströngum viðræðum, ég og sá klúbbur, í vetur og svo náum við samkomulagi. Það tók bara sinn tíma. Það er leyst núna og það er mjög gott,“ segir Viðar.
„Þetta mál var smá klúður frá byrjun. Ég var bara ekki alveg viss hvernig þetta virkaði allt saman. En það er gott að það sé leyst núna og maður getur farið að spila fótbolta. Ég vissi alltaf að þetta myndi leysast en þetta tók smá tíma.“