Arsenal hefur mikið verið í því að klúðra færum í undanförnum leikjum og það reynst dýrkeypt.
Liðið féll úr leik í enska bikarnum gegn Manchester United í gær eftir vítaspyrnukeppni. Arsenal var manni fleira í klukkutíma samtals með framlengingu en tókst ekki að nýta sér liðsmuninn þrátt fyrir að fá vítaspyrnu og nokkur dauðafæri.
Þá tapaði Arsenal gegn Newcastle í undanúrslitum enska deildabikarsins í síðustu viku, 0-2 og er í erfiðri stöðu fyrir seinni leikinn. Þar fékk liðið sömuleiðis aragrúa af færum en tókst ekki að nýta sér það.
XG, áætluð mörk, Arsenal var 3,2 í báðum leikjum eða 6,4 samanlagt. Í þessum leikjum skoraði Arsenal aðeins eitt mark, gegn United í gær, og er þar með 5,4 undir áætluðum markafjölda.
Það er spurning hvort Arsenal fari að skella sér á félagaskiptamarkaðinn til að finna framherja á næstunni.