Freyr Alexandersson hefur formlega verið kynntur til leiks sem þjálfari norska stórliðsins Brann. Hann er vitaskuld glaður með að hafa skrifað undir í Bergen.
Brann hefur hafnað í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar undanfarin tvö ár og skrifar Freyr undir samning til ársins 2027.
„Það er margt sem spilar inn í. Þetta er frábært félag með mikla sögu, ótrúlega stuðningsmenn og borg sem brennur fyrir Brann,“ segir Freyr í fyrsta viðtalinu við heimasíðu félagsins.
„Svo er þetta líka hæfileikaríkur leikmannahópur. Það er fólk hér með góðar áætlanir og sýn á hlutina. Þetta er félag sem hefur gert vel síðustu þrjú ár með góðum þjálfara sem ákvað að taka næsta skref. Ég tel að ég geti verið rétti aðilinn til að taka Brann enn lengra.
Það er líka margt sem spilar inn í fyrir mig persónulega. Ég vildi fara aftur til Skandinavíu og ég hef heyrt mjög góða hluti um Bergen. En þetta snýst auðvitað fyrst og fremst um fótboltann,“ sagði Freyr einnig meðal annars í viðtalinu, sem sjá má í heild hér að neðan.