Fylkir hefur staðfest komu Eyþórs Wöhler til félagins. Skrifar hann undir tveggja ára samning.
Eyþór var síðast á mála hjá KR í Bestu deildinni en fer nú til Fylkis, sem féll niður í Lengjudeildina í sumar.
Tilkynning Fylkis
Eyþór Aron Wöhler hefur skrifað undir tveggja ára samning við Fylki.
Það er okkur Fylkisfólki mikið fagnaðarefni að hafa náð samkomulagi við Eyþór sem við sjáum sem mikilvæga viðbót við öflugan leikmannahóp okkar sem mun gera atlögu að því að komast beint í deild þeirra bestu aftur.
Eyþór, sem er framherji, á að baki 136 leiki og 22 mörk í meistaraflokki. Eyþór lék með KR á síðustu leiktíð en hefur einnig leikið með Breiðabliki, HK, ÍA og Aftureldingu. Eyþór verður 23 ára í lok mánaðar og er uppalinn í Aftureldingu en hann gekk til við ÍA og lék með Skagamönnum í efstu deild tímabilin 2021 og 2022.
Eyþór færði sig yfir til Breiðabliks fyrir tímabilið 2023, en lék seinni hluta þess tímabils á láni hjá HK. Fyrir leiktíðina 2024 skipti hann svo yfir í KR. Eyþór á að baki 15 landsleiki og 4 mörk fyrir yngri landslið Íslands.
„Ég er afar sáttur með að ganga í raðir Fylkismanna á þessum tímapunkti. Hér í Árbænum er allt til staðar og ég mun gera allt til þess að standa mig vel í appelsínugulu treyjunni á næstu árum” var haft eftir Eyþóri við þessi tíðindi.