Fjölmiðlar fengu engan aðgang að Trent Alexander-Arnold, leikmanni Liverpool, eftir að liðið tryggði sér Englandsmeistaratitilinn í gær.
Liverpool vann Tottenham 5-1 og ljóst að Arsenal getur nú ekki náð toppliðinu, þó svo að fjórar umferðir séu eftir. Það var eðlilega mikið fagnað í leikslok og tók Trent að sjálfsögðu fullan þátt þar.
Bakvörðurinn er hins vegar líklega að kveðja Liverpool í sumar, þegar samningur hans rennur út. Allar líkur eru á því að hann fari til Real Madrid, en ekkert hefur verið staðfest og Trent sjálfur verið þögull sem gröfin.
Á bandarísku sjónvarpsstöðinni Peacock kom það fram í gær að verið væri að halda Trent frá fjölmiðlum og að honum yrði ekki hleypt í neitt viðtal.
Vangaveltur um framtíð hans halda því áfram, en sem fyrr segir er þó líklegast að hann fari til Spánar.