Patrice Evra, fyrrum leikmaður Manchester United, er byrjaður að æfa aðra íþrótt og er nú að undirbúa sig fyrir sinn fyrsta bardaga í MMA.
Evra hefur í raun stundað íþróttina undanfarin níu ár með pásum en hann hefur þó ekki barist í hringnum hingað til.
Um er að ræða fyrrum franskan landsliðsmann sem gerði garðinn frægan með United – hann hefur æft með Cedric Doumbé síðan 2016.
Evra fær að upplifa drauminn þann 23. maí næstkomandi en þá fer fram viðburður á Accor Arena.
Frakkinn hefur skorað á Luis Suarez að láta sjá sig í hringnum en sá síðarnefndi er í dag leikmaður Inter Miami.
Þeir þekkjast vel úr ensku úrvalsdeildinni og voru ‘óvinir’ um tíma eftir að Suarez var dæmdur í bann fyrir rasisma í garð Evra.
,,Ég er nú byrjaður að undirbúa mig fyrir minn fyrsta bardaga. Þeir munu velja andstæðinginn en spurðu mig hverjum ég vildi mæta,“ sagði Evra.
,,Ég svaraði einfaldlega Luis Suarez. Ég skal borga þetta. Hann má jafnvel bíta mig.“