ÍR sem leikur í Lengjudeildinni í sumar hefur vakið athygli í vetur fyrir vaska framgöngu sína í Lengjubikarnum og svo í Mjólkurbikarnum.
Það vakti hins vegar nokkra athygli á laugardag þegar liðið mætti Þór í 32 liða úrslitum bikarsins að nokkra lykilmenn vantaði.
Komið hefur fram að fjórir leikmenn liðsins fengu páskafrí og fóru erlendis, þeir gátu því ekki tekið þátt í leiknum.
„Helsta er að það voru fjórir ÍR-ingar í páskafríi, þeir voru í páskafríi? Hvaða áhugamennska er þetta, þeir eru í Lengjudeildinni, ætli það sé sumarfrí á leiðinni,“ sagði Albert Brynjar Ingason stjórnandi Gula spjaldsins sem var hneykslaður á þessu.
Jóhann Birnir Guðmundsson er þjálfari liðsins og hefur gert frábæra hluti undanfarið. „Þú ert fótboltamaður á Íslandi og átt að vita að páskafrí er ekki í boði. Jóhann Birnir sagði að það væri allt í góðu, þetta hefði verið í samráði,“ sagði Gunnar Ormslev gestur þáttarins.
Ásgeir Frank Ásgeirsson aðstoðarþjálfari Fjölnis sem leikur í sömu deild og ÍR var á sama máli. „Það eru tvær vikur í mót, það er galið. Maður er ekki vanur þessu, að það sé páskafrí í boltanum.“
„Er ekki bara eðlilegt að það sé lokað á utanlandsferðir eftir janúar.“