Mohamed Salah, stjarna Liverpool, mun missa af óvenju mörgum leikjum í ensku úrvalsdeildinni vegna Afríkumótsins á næsta ári.
Salah er landsliðsmaður Egyptalands og stefnir liðið að því að fara alla leið á mótinu. Vanalega hefst Afríkumótið í janúar en nú er ljóst að það byrjar 21. desember í Marokkó.
Tvær auka leikvikur í janúar í Meistaradeild Evrópu vegna nýs fyrirkomulags þar verða til þess að byrja þarf mótið fyrr. Lýkur því svo með úrslitaleik 18. janúar.
Verður þetta til þess að Salah, sem og fleiri Afríkumenn, munu missa af öllum leikjum yfir hátíðirnar í ensku úrvalsdeildinni, en þegar mótið hefur hafist í janúar hefur það yfirleitt skarast á færri leiki í deildinni og frekar á bikarleiki.
Salah skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Liverpool á dögunum eftir mikla óvissu um framtíð hans undanfarna mánuði, en samningur hans átti að renna út nú í sumar.