Valur Gunnarsson fyrrum markvörður Leiknis hjólaði nokkuð fast í Halldór Árnason, þjálfara Íslandsmeistara Breiðabliks í hlaðvarpi Fótbolta.net.
Breiðablik tapaði 4-2 gegn Fram á sunnudag eftir að hafa komist 0-2 yfir í leiknum.
„Eins og Blikarnir eru í dag þá eru þeir ekki tilbúnir í slaginn, það vantar Damir og Ísak. Hvernig urðu Blikar Íslandsmeistarar í fyrra? Þeir keyrðu Víkinga niður,“ sagði Valur hjá Fótbolta.net.
Valur var verulega óhress með viðtal sem Halldór fór í eftir leikinn þar sem hann kvartaði undan hörkunni í liði Fram.
„Svo mætir Dóri eftir leik núna og gagnrýnir Fram fyrir að keyra þá niður, taktu á móti þeim. Ekki mæta í viðtal eftir leik og væla, þegar þú verður Íslandsmeistari á sama bragði.“
„Komdu í viðtal og segðu að við vorum linir, frekar en að tala um að þeir hafi verið harðari. Fyrir utan það að Blikar fengu fleiri gul spjöld.“
Halldór gagnrýndi sína menn þó nokkuð eftir leik og sagði einmitt að hann hefði viljað sjá þá bregðast mun betur við ákefð Framara.
„Við erum bara soft allan seinni hálfleikinn og þetta er í rauninni bara afleiðing af því. Svo skora þeir 2-1 markið og þá finnst mér við einhvern veginn verða hræddir. Í staðinn fyrir að við sækjum þetta þriðja mark og klárum þetta, sem við reynum að gera, Tobias og Valgeir komast báðir í góðar stöður þá ganga þeir á lagið. Heilt yfir var þetta bara soft í seinni hálfleik,“ sagði hann til að mynda við Stöð 2 Sport.
Breiðablik er með þrjú stig eftir tvær umferðir og mætir Stjörnunni á heimavelli í næstu umferð.