Þorri Mar Þórisson var ekki í hóp hjá Stjörnunni í sigrinum á ÍA í Bestu deildinni í gær, í kjölfar þess að hafa verið ónotaður varamaður í fyrstu umferð deildarinnar gegn FH. Hann er nú orðaður við brottför.
Bakvörðurinn gekk í raðir Stjörnunnar frá Öster í vetur og héldu menn að hann yrði í stóru hlutverki. Það hefur ekki komið á daginn það sem af er. Í viðtali við Fótbolta.net í gær var Jökull Elísabetarson þjálfari Stjörnunnar spurður út í Þorra og hvort hann gæti farið, en hann var til að mynda oraður við brottför í hlaðvarpinu Dr. Football.
„Ég held að það séu engar líkur á því. Hann var geggjaður í dag, fagnaði manna mest. Hann var mættur inn í klefa fyrir leik, hálfleik og fyrstur út á völl eftir leik. Hann er ennþá að komast inn í hlutina hjá okkur. Hann á eftir að verða yfirburðar bakvörður í þessari deild. Það verður gaman að fylgjast með honum,“ sagði Jökull.
Þetta var þá tekið fyrir í Innkastinu, hlaðvarpsþætti á vegum Fótbolta.net. Þar sagði sparkspekingurinn Valur Gunnarsson frá því sem hann hafði heyrt um málefni Þorra.
„Mér finnst athyglisvert að Þorri, gaur sem þeir landa úr atvinnumennsku, sé ekki í hóp í kvöld. Það er ekki því hann er meiddur. Menn í Garðabænum tala um að hann sé ekki nógu góður og svo að hann sé ekki að passa inn í hópinn. Mér skilst að Baldur Logi sé næstur í hægri bakvörðinn ef Samúel Kári dettur út,“ sagði Valur.