Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, telur ekki að leikurinnn annað kvöld gegn Arsenal í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu muni hafa áhrif á framtíð hans hjá félaginu.
Real Madrid er með bakið upp við vegg fyrir seinni leikinn í spænsku höfuðborginni annað kvöld, en fyrri leikurinn í London tapaðist 3-0.
Það hefur mikið verið rætt og ritað um að sæti Ancelotti sé farið að hitna. Hefur hann þá verið orðaður við landsliðsþjálfarastöðuna hjá Brasilíu.
„Ég tel ekki að þessi leikur gegn Arsenal muni hafa áhrif á framtíð mína hjá Real Madrid,“ sagði Ítalinn hins vegar á blaðamannafundi í dag.
Ancelotti hefur að sjálfsögðu trú á að Real Madrid, sem er ríkjandi Evrópumeistari, geti komið til baka gegn Arsenal annað kvöld.
„Ég hlakka til morgundagsins. Við þurfum að vera yfirvegaðir. Þetta er ekki minn fyrsti stórleikur og vonandi ekki sá síðasti.“