Dagný Brynjarsdóttir segir íslenska landsliðið hafa sýnt karakter með því að koma til baka gegn Sviss í Þjóðadeildinni í dag en hefði auðvitað viljað stela sigrinum.
Ísland lenti 0-2 og 1-3 undir en niðurstaðan varð 3-3 jafntefli. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði öll mörk íslenska liðsins, sem var manni fleira síðustu 20 mínútur leiksins.
„Það er erfitt að byrja leik 0-1 undir og við erum að mörgu leyti að elta allan leikinn,“ sagði Dagný við 433.is eftir leik.
„Mér fannst við sýna karakter með því að koma til baka og við vorum óheppnar að ná ekki að klára þetta, við fengum færin til þess í lokin.“
Ísland er í næstneðsta sæti riðilsins en á eftir að mæta ógnarsterkum liðum Frakklands og Noregs síðar í vor.
„Noregur úti og Frakkland heima er ekki alslæmt. Eins og í öllum leikjum stefnum við á sigur þar,“ sagði Dagný, en ítarlegra viðtal er í spilaranum.