Egill er stuðningsmaður Liverpool og tók eftir að liðið heimsækir Fulham í dag í ensku höfuðborginni. Hann fór að skoða miða en sá þá að þeir kostuðu um 250-260 pund (42-44 þúsund íslenskar) stykkið.
„Þetta er verðið. Færi varla einn, myndi taka Sigurveigu með þótt hún hafi engan áhuga á fótbolta. Jæja, mér líður hvort eð er ekki sérlega vel í manngrúa,“ skrifaði Egill á Facebook- síðu sína fyrir helgi.
Í athugasemdakerfinu má sjá að fólk furðar sig á verðinu á leiki í ensku úrvalsdeildinni. Þar stingur sagnfræðingurinn og knattspyrnuáhugamaðurinn Stefán Pálsson þó einnig niður penna og bendir Agli á að kíkja á leik í deildunum fyrir neðan á Englandi, þar sé ódýrara og meiri stemning.
Þess má geta að Liverpool er langefst í ensku úrvalsdeildinni og svo gott sem búið að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn.