Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, viðurkennir að það sé högg að missa landsliðsfyrirliðann Glódísí Perlu Viggósdóttur í meiðsli en hefur trú á að aðrir leikmenn stígi upp í hennar stað.
Glódís, sem er lykilmaður þýska stórliðsins Bayern Munchen, mun ekki koma til með að geta tekið þátt í leikjum Íslands gegn Noregi og Sviss í Þjóðadeildinni.
„Auðvitað er alltaf slæmt að missa frábæran leikmann og liðsfélaga. Það eru tveir leikmenn í hópnum sem hafa verið í landsliðinu þegar hún er ekki,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundi í dag.
„Þetta getur komið fyrir og við þurfum bara að takast á við það. Ég hef enga trú á öðru en að þeir leikmenn sem taki við muni stíga upp og fylla það skarð sem hún skilur eftir sig.“
Leikurinn gegn Noregi er á morgun og leikurinn við Sviss á þriðjudag. Báðir hefjast þeir klukkan 16:45.