Leikmenn og þjálfari íslenska kvennalandsliðsins eru vonsviknir að ekki sé orðið uppselt á komandi leik gegn Noregi í Þjóðadeildinni, en hann fer fram á heimavelli Þróttar í Laugardalnum þar sem Laugardagsvöllur er ekki tilbúinn.
„Auðvitað velur fólk algjörlega hvað það gerir. Ég lít samt á það sem mikil vonbrigði. Það eru ekki það mörg sæti hérna á vellinum. Mér finnst eiginlega skandall að það sé ekki orðið uppselt,“ sagði landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson um málið á blaðamannafundi í dag.
Ingibjörg Sigurðardóttir verður fyrirliði Íslands í komandi leikjum gegn Noregi og Sviss í fjarveru Glódísar Perlu Viggósdóttir. Hún tók undir orð Þorsteins á fundinum í dag.
„Það eru vonbrigði. Þetta er lítil stúka og við eigum að ná að selja upp á þennan leik á fimm mínútum finnst mér. En þetta er bara staðan og við þurfum að sjá hvað við getum gert til að fá fólk á völlinn og svo þarf fólk að vera tilbúið að styðja okkur. Það gefur okkur ótrúlega mikið að hafa fulla stúku,“ sagði hún.