Venju samkvæmt byrjum við á liðinu sem er spáð 12. sæti og í ár er það Vestri, sem hafnaði í 10. sæti deildarinnar sem nýliði í fyrra.
Hrafnkell Freyr Ágústsson, sérfræðingur um Bestu deildina, hefur þetta að segja um Vestra:
Ég er mjög spenntur fyrir Vestra því það er mikið um breytingar. Nýju mennirnir eru margir hverjir spurningamerki en ég er mjög spenntur fyrir Daða Berg, sem kom á láni frá Víkingi og kom vel inn í liðið hjá þeim í fyrra. Ég er líka mjög spenntur fyrir komu Diego Montiel og Anton Kralj. Það verður fróðlegt að sjá þá frá heimavelli frá upphafi móts. Þeir eru komnir með góðan stuðningsmannakjarna sem mætir á völlinn, það vantaði til dæmis þegar liðið var í Lengjudeildinni.
Lykilmaðurinn
Eiður Aron Sigurbjörnsson
Þarf að stíga upp
Elmar Atli Garðarsson – Liðið er mjög breytt og fyrirliðinn þarf að leiða þennan nýja hóp áfram, utan vallar fyrst og svo innan hans þegar hann kemur úr banni í maí.
Vestri hefur leik á sunnudag klukkan 14, en þá heimsækir liðið Val að Hlíðarenda.